Efnahagsumhverfið


Eftir kalt og úrkomuríkt ár 2015 kom árið 2016 með birtu og hlýindi á Íslandi. Árið byrjaði reyndar með fremur köldum janúar og febrúar en síðan fór að hlýna og þegar upp var staðið var árið eitt það hlýjasta frá því að mælingar hófust. Úrkoma í Reykjavík var undir meðallagi og meðalhiti ársins 6,0 stig. Vindhraði var einnig undir meðallagi og illviðri færri á árinu en algengt er.

Ársins verður einnig minnst fyrir góðan árangur íþróttafólks okkar, frægðarför fótboltalandsliðsins til Frakklands, þátttökurétt í LPGA golfmótaröðinni, sund, þjálfara erlendra handboltalandsliða svo eitthvað sé nefnt.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu stóð sig vel á EM 2016

Hagkerfið Ísland átti einnig gott ár. Áætlað er að útflutningur hafi aukist um 10% á árinu 2016, og þar af hafi umsvif í ferðaþjónustu aukist um 37% að raunvirði, og séu þannig fjórfalt meiri en árið 2010.

Ekkert lát var á fjölgun ferðamanna til landsins og er ferðaþjónusta orðin helsta stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Fjöldi ferðamanna um Leifsstöð var 1.768 þúsund árið 2016 og óx úr 1.262 þúsundum ársins 2015. Nemur aukningin 40%. Ekki er lengur einungis straumur ferðamanna um hásumarið heldur koma þeir til landsins allt árið um kring sem hefur bætt nýtingu innviða ferðaþjónustunnar til mikilla muna. Ekki sér fyrir endann á túristastraumnum því árið 2017 fer af stað með látum.

Ekkert lát var á fjölgun ferðamanna til landsins

Gengi krónunnar styrktist á árinu um 18,4% sem er meiri styrking á einu ári en áður hefur mælst. Seðlabankinn studdi engu að síður við stöðugleika með inngripum á gjaldeyrismarkaði á árinu og keypti gjaldeyri fyrir 386 milljarða króna. Mest styrktist krónan gagnvart Sterlingspundi, eða um 28%, en niðurstaða Brexit kosninganna í Bretlandi hafði neikvæð áhrif á stöðu pundsins á árinu. Krónan hefur haldið áfram að styrkjast það sem af er ári 2017 og er reiknað með að sú þróun haldi eitthvað áfram.

Hagvöxtur var um 6% á árinu 2016 samkvæmt spá Seðlabankans og eru taldar líkur á kröftugum hagvexti áfram. Er þetta talsvert meiri hagvöxtur en við sjáum hjá nágrannalöndum okkar. Fasteignaverð hækkaði mikið á árinu, til að mynda hafði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 15% frá fyrra ári í desember. Atvinnuleysi er í lágmarki, og hefur ekki mælst minna frá því fyrir hrun og er aftur farið að bera talsvert á innfluttu vinnuafli til að brúa skort á vinnuafli.

Verðbólga var lág eða um 1,9% og hélst þannig undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Líkur eru á að hún haldast lág í það minnsta vel fram eftir 2017. Vextir Seðlabankans voru lækkaðir í tvígang á árinu, úr 5,75% niður í 5,0%.

Innflutningur bíla hélt áfram að aukast

Innflutningur bíla hélt áfram að aukast og voru nýskráningar fólksbíla 18.442 sem er 31,4% aukning frá árinu áður. Nærri helmingur nýskráðra fólksbíla voru bílaleigubílar.

Heilt yfir var árið 2016 hagfellt fyrir íslenskt efnahagslíf, og óhætt er að leyfa sér nokkra bjartsýni á stöðu þess næstu misserin.