Fjárfestingar


Fjárfestingastarfsemi er önnur af undirstöðunum í rekstri VÍS.

Fjárfestingarstarfsemi er önnur af grunnstoðunum í rekstri VÍS. Markmið hennar er að ávaxta fjárfestingaeignir félagsins á sem bestan og öruggastan hátt. Þær eru til að mæta óuppgerðum tjónum og öðrum skuldbindingum félagsins. Þannig hvílir á félaginu mikil ábyrgð að ávaxta þá fjármuni með öruggum hætti.

Fjárfestingaeignir í lok árs 2016 námu 34,1 milljarði króna og hækkuðu um tæpar 500 milljónir króna á milli ára.

Samsetning fjárfestingaeigna félagsins er ákvörðuð í fjárfestingastefnu félagsins. Fjárfestingastefna félagsins er endurskoðuð að minnsta kosti einu sinni á ári og samþykkt af stjórn félagsins.  Þar eru sett langtímamarkmið um vægi eignaflokka í eignasafni félagsins, byggð á sögulegri ávöxtun og áhættu. Heimildir til að víkja frá þeim markmiðum til skamms tíma ef það er talið hagfelldara fyrir félagið, eru til staðar. Fjárfestingastefnan þarf að vera í samræmi við gjaldþolsmarkmið og áhættuvilja félagsins.

Afkoma af fjárfestingastarfseminni nam 1.997 milljónum króna árið 2016 samanborið við 4.076 milljóna króna hagnað árið 2015.

Árið var talsvert krefjandi samanborið við árið á undan.  Þannig var talsverður viðsnúningur í ávöxtun á innlendum hlutabréfum á síðasta ári þar sem Úrvalsvísitalan lækkaði um 6,92% samanborið við 49% hækkun árið 2015. Þetta er fyrsta árið frá því hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi var endurreistur í kjölfar efnahagshrunsins 2008, sem hann skilar neikvæðri ávöxtun.

Engu að síður skiluðu innlend hlutabréf jákvæðri ávöxtun á síðasta ári fyrir VÍS og nam ávöxtun á innlendum hlutabréfum í eigu félagsins 5,7% sem er langt yfir viðmiðunarvísitölu.

Einnig skiluðu óskráð hlutabréf frábærri ávöxtun á síðasta ári eða 32%.

Eignir

Graf - eignir - ekki breyta þennan texta

Talsverðar breytingar urðu á eignasafni félagsins á liðnu ári. Félagið hélt áfram að draga úr vægi ríkistryggðra eigna í safni félagsins og seldi ríkistryggð bréf fyrir 4,5 milljarða króna Á móti jók félagið verulega við sig í öðrum skuldabréfum og sjóðum.

Félagið bætti líka við sig í skráðum innlendum hlutabréfum á árinu fyrir tæpan 2,1 milljarð króna. Á móti því seldi félagið erlend verðbréf fyrir rúman 1,4 milljarða króna eins og áður hefur komið fram.

Kaup og sala

Graf - kaup og sala - ekki breyta þennan texta

Styrking krónunnar hafði afgerandi áhrif á fjárfestingastarfsemi félagsins, en alls styrktist krónan um 18,4% á síðasta ári. Meginskýringar á mikilli styrkingu krónunnar eru nokkrar. Aukin sókn erlendra aðila í innlendar eignir, sala innlendra aðila á erlendum eignum og afgangur af viðskiptum við útlönd. Styrking krónunnar hefði líklega orðið talsvert meiri ef Seðlabanki Íslands hefði ekki keypt erlendan gjaldeyri fyrir alls 386 milljarða króna, 114 milljörðum meira en árið áður og sett reglur á miðju ári sem takmarka verulega kaup erlendra aðila á innlendum skuldabréfum.

VÍS hefur í langan tíma skoðað leiðir til þess að bregðast við styrkingu krónunnar, meðal annars með því að sækja um heimild til Seðlabanka Íslands til að verja gengisáhættu félagsins, en án árangurs. Því var tekin ákvörðun í upphafi árs að selja öll skráð erlend verðbréf fyrir rúma 1,4 milljarða króna meðal annars til að bregðast við fyrirsjáanlegri styrkingu hennar. Með því tókst að draga verulega úr gjaldmiðlaáhættu félagsins.

Félagið hefur í mörg ár tekið þátt í erlendri starfsemi. Í tengslum við hana þarf félagið að eiga talsvert af viðskiptakröfum og geymslufé í erlendri mynt. Verulegt tap var af gengismuni gjaldmiðla á síðasta ári. Á móti hefur styrking krónunnar jákvæð áhrif á vátryggingaskuld félagsins.

Ávöxtun skuldabréfasafns félagsins var góð á árinu og sérstaklega óverðtryggðra skuldabréfa. Þar hjálpaðu til tvær vaxtalækkanir Seðlabankans og lág verðbólga eða 1,9%, sem að mestu má rekja til lækkunar á innfluttum vörum vegna styrkingar krónunnar. Verðbólga hefur nú haldist innan verðbólgumarkmiða Seðlabankans í hátt á þriðja ár og fátt sem bendir til þess að það muni breytast.

Afkoma

Graf - afkoma - ekki breyta þennan texta