Framtíðarsýn
Í byrjun árs 2017 keypti VÍS 21,8% hlut í fjárfestingabankanum Kviku. Kaupin á hlutnum er gott fjárfestingatækifæri, stuðlar að dreifingu áhættu í eignasafni félagsins og þjónar þannig hagsmunum VÍS vel til lengri tíma, bæði viðskiptavinum og hluthöfum. Leiðandi bankar og tryggingafélög á mörkuðum í Evrópu hafa í ríkari mæli farið að bjóða upp á alhliða þjónustu, sem innheldur allt sem viðkemur fjármálum og tryggingum einstaklinga og fyrirtækja og skilið sig frá samkeppnisaðilum bæði hvað varðar ánægju viðskiptavina og afkomu. Það er engum blöðum um það að fletta að VÍS horfir til þess að halda áfram að vera leiðandi afl á íslenskum vátryggingamarkaði og hluti af því er að rýna inn í framtíðina.
Vinna við stefnumótun félagsins tekur mið af þessu, þar sem horft er sérstaklega til sértækrar fjármálaþjónustu og þróunar í rafrænni þjónustu.
Straumlínustjórnun VÍS var framhaldið á árinu en félagið hefur tekið innleiðingu á LEAN föstum tökum frá haustinu 2013. Önnur fyrirtæki hafa tekið eftir þessu og sóst eftir heimsóknum til okkar til að fræðast um innleiðingu okkar auk þess sem við höfum tekið á móti fjöldanum öllum af nemendahópum.
VÍS hefur náð fram umbótamenningu, sem er lykill að straumlínustjórnun, með markvissri innleiðingu á LEAN-aðferðafræðinni, sem veitir bæði tæki og tól ásamt viðhorfsbreytingu til verkferla og vinnuumhverfis. Ekki er síður mikilvægt að LEAN eykur starfsánægju starfsmanna þar sem þeirra álit skiptir máli og þeir taka virkan þátt í umbótum.
Nú þegar hefur LEAN verið innleitt á formlegan hátt í rúmlega 60% af fyrirtækinu. Árið 2017 er stefnt að því að öll svið sem sinna kjarnastarfsemi VÍS; Einstaklingssvið, Fyrirtækjasvið, Tjónasvið og Fjármálasvið, hafi farið í gegnum formlega innleiðingu LEAN. Unnið er í næstu skrefum innleiðingarinnar með að því að taka fyrir virðisstrauma fyrirtækisins, sem endurspegla kjarnastarfsemina, oft þvert yfir svið og deildir og vinna að straumlínulögun þeirra.
LEAN ferðalag VÍS hefur náð ákveðnum þroska að því leyti að nú sækjast stjórnendur eftir því að nota þau tæki og tól sem LEAN veitir þeim, sér til árangurs.
Innleiðing nýja tölvukerfisins Asks frá danska hugbúnaðarfyrirtækinu TIA Technology A/S sem mun gera alla umsýslu með tryggingar, iðgjöld og uppgjör fljótlegri og einfaldari er í fullum gangi. Búið er að setja nær alla nýja viðskiptavini, bæði einstaklinga og fyrirtæki, inn í kerfið samhliða því sem verið er að sníða vankanta sem ávallt fylgja innleiðingum af þessari stærðargráðu. Næst á dagskrá er að færa viðskiptavini úr gamla kerfinu yfir það í nýja um leið og tryggingar þeirra eru endurnýjaðar. Þetta er viðamikið verkefni, en eftir því sem fleiri viðskiptavinir flæða inn í Ask mun ávinningur af kerfinu raungerast og félagið verður á nýjum stað til að þróast til framtíðar. Innleiðing nýs tölvukerfis gerir VÍS kleift að þjónusta viðskiptavini sína á enn betri hátt í framtíðinni. Einnig að bjóða upp á notendavænar rafrænar lausnir fyrir viðskiptavini við tryggingatöku og tjónaafgreiðslu, auk þess að minnka flækjustig í rekstri.
Auður VÍS liggur ekki síst í frábæru starfsfólki um allt land. Þar kemur saman mikil þekking, reynsla og síðast en ekki síst ástríða fyrir félaginu og umhyggja fyrir viðskiptavinum þess. Það er ekki síst þeim að þakka að VÍS er jafn öflugt félag og raun ber vitni. Það hefur ekki alltaf verið einfalt eða auðvelt starfsumhverfið undanfarin ár með miklu álagi, breytingum og neikvæðri umræðu í kringum arðgreiðslumálið í fyrra. Af öllu þessu hefur félagið og starfsfólk dregið lærdóm, styrkst og lagt grundvöll að bjartri framtíð félagsins. Innleiðing nýs tölvukerfis er oft á tíðum erfið og reynir á þrautseigju, en þegar fram í sækir mun kerfið minnka óþarfa álag, fækka villum og gera starfsfólki kleift að einbeita sér að því sem skiptir mestu máli; Að bæta VÍS á allan hátt – hvort heldur sem er í innra eða ytra starfi og sjá til þess að félagið sé áfram leiðandi afl á íslenskum vátryggingamarkaði.