Samfélagsábyrgð


VÍS er traust, leiðandi og framsækið þjónustufyrirtæki, sem veitir viðskiptavinum viðeigandi vátryggingavernd og stuðlar að öryggi í samfélaginu með öflugum forvörnum. Með stefnu um samfélagsábyrgð leitast VÍS við að starfsemin og þjónustan stuðli að sameiginlegum ávinningi fyrir viðskiptavini, samfélagið í heild, umhverfið og eigendur félagsins.

Í samræmi við stefnuna er unnið með fjölbreyttum hætti að því að draga úr hættu á slysum og tjónum hjá viðskiptavinum. Fjölbreyttar forvarnaupplýsingar sem allir geta nýtt sér eru á vis.is. Eins koma þar reglulega fréttir, sem taka meðal annars á málefnum líðandi stundar, könnunum, tjónum og fleiru áhugaverðu. Einnig kemur þar inn efni, sem fjölmiðlar fjalla um. Framlínustarfsmenn hafa fjölbreytt fræðsluefni og vörur til að nota í samskiptum við viðskiptavini. Markvisst forvarnastarf er með nokkrum af stærstu viðskiptavinum á fyrirtækjasviði, sem hefur skilað góðum árangri. Þar er staðlað stöðumat notað í heimsóknum og fyrirtækjum gefin forvarnaeinkunn í kjölfarið. Með þeirri vinnu hefur slysum og tjónum fækkað hjá mörgum fyrirtækjum, sem leitt hefur til lækkunar á tjónakostnaði og þar af leiðandi til lækkunar iðgjalda.

Samfélagsábyrgð

Samfélagsábyrgð VÍS byggir á sex meginstoðum; forvörnum, samstarfsaðilum, reglufylgni, mannauði, umhverfi og samfélagi.

Forvarnir
Forvarnastefna VÍS hefur verið til frá árinu 2008. Allir starfsmenn eru forvarnarfulltrúar í þjónustu sinni við viðskiptavini. Forvarnir eru hluti af fyrirtækjamenningu VÍS og mikilvægur hlekkur í starfsemi félagsins. Forvarnir eru sýnilegur hluti af starfsemi VÍS og hafa þann tilgang að fækka slysum og tjónum meðal viðskiptavina og í samfélaginu öllu.

Samstarfsaðilar
VÍS gerir kröfur um að samstarfsaðilar félagsins hagi starfsemi sinni á samfélagslega ábyrgan hátt á sviði umhverfis- og öryggismála. Þannig að þeir uppfylli ákvæði laga og reglugerða líkt og með notkun á viðeigandi öryggisbúnaði og starfsaðstæðum.

Reglufylgni
VÍS kappkostar að fylgja lögum og reglum í hvívetna og stuðla þannig að skilvirkni og heilbrigði allra þeirra markaða, sem starfsemi þess varðar. Þar sem lögum og reglum sleppir er tekið af fagmennsku á málum.

Mannauður
Það er markmið VÍS að tryggja jafnrétti þannig að hver og einn starfsmaður sé metinn að verðleikum óháð kyni og að hæfileikar hvers og eins nýtist til fulls. Til að styðja það enn frekar er unnið að innleiðingu jafnlaunastefnu. Starfað er í samræmi við vinnuverndarstefnu til að tryggja öryggi og góða heilsu. Starfsfólk er stutt til að afla sér menntunar og fræðslu, sem nýtist í starfi og stuðlað að starfsþróun. Með aðild VÍS að jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact, eru þessar áherslur undirstrikaðar.

Umhverfi
VÍS leggur áherslu á að starfsemi félagsins stuðli að sem minnstri mengun og hreinni náttúru. Má þar nefna flokkun rusls og förgun úrgangs í kjölfar tjóna á sem umhverfisvænstan máta. Með samgöngustefnu er ýtt undir vistvænar og hagkvæmar samgöngur starfsfólks til og frá vinnu, sem stuðlar að minni mengun og meira öryggi í umferðinni.

Samfélag
Það er stefna VÍS að styðja og styrkja verkefni sem stuðla að öryggi í samfélaginu með öflugum forvörnum. Megináhersla er því lögð á forvarnarlegt gildi styrktarverkefna í Samfélagssjóðnum. Tíðni styrkúthlutana var fækkað á árinu og fóru umsóknir sem bárust síðari hluta árs fyrir úthlutunarnefnd 17. janúar 2017.