Stefna VÍS


Frá árinu 2012 hefur VÍS fjárfest mikið til þess að styrkja og einfalda innviði sína. Öll stefnumið og lykilverkefni félagsins hafa miðað að því að einfalda og styrkja undirliggjandi rekstur og búa til virði fyrir viðskiptavini. Þessi fjárfesting mun til lengri tíma gera VÍS kleift að auka hagkvæmni í rekstri og bæta þjónustu við viðskiptavini sína og styðja við frekari framþróun í samræmi við framtíðarsýn félagsins.

Stefna VÍS er endurskoðuð árlega með þátttöku alls starfsfólks fyrirtækisins. Hafin er vinna við endurmótun stefnunnar til framtíðar, með áherslu á sértæka fjármálaþjónustu, viðskiptavinum til hagsbóta og í samræmi við þá þróun, sem er í gangi á mörkuðum í Evrópu.

Á árinu var unnið áfram með jafnlaunavottun, en VÍS stefnir að því að verða eitt af fyrstu fyrirtækjunum á Íslandi til að fá vottun í samræmi við ÍST-85/2012 staðalinn.

VÍS heldur áfram ferðalagi sínu hvað varðar LEAN menningu, en þar liggur til grundvallar að byggja upp umbótamenningu þar sem stöðugt er leitað leiða til að bæta þjónustu við viðskiptavini. LEAN menning hefur einnig áhrif á starfsánægju starfsmanna, því álit þeirra skiptir máli og þeir taka virkan þátt í umbótum og breytingum innan fyrirtækisins. LEAN tekur nú til um 60% af starfsemi VÍS. Stefnt er að því að öll svið sem sinna kjarnastarfsemi VÍS hafi farið í gegnum formlega innleiðingu LEAN fyrir lok þessa árs.

VÍS heldur áfram ferðalagi sínu hvað varðar LEAN menningu


Árangur VÍS við innleiðingu LEAN menningar hefur vakið mikla athygli út á við. Tekið hefur verið á móti fjölda áhugasamra hópa, bæði frá fyrirtækjum og úr háskólasamfélaginu. Góður rómur hefur verið gerður að miðlun þekkingar og reynslu fyrirtækisins í þessum málaflokki.

Sífellt fleiri viðskiptavinir vilja nýta sér rafræna þjónustu og sjálfsafgreiðslu. Stjórnendur VÍS telja að hlutfall þeirra muni vaxa mjög hratt á næstu tveimur til þremur árum. VÍS státar af víðtæku þjónustuneti með rúmlega þrjátíu þjónustustaði um allt land. Mikil tækifæri felast í því að útvíkka þjónustunetið með rafrænum hætti, viðskiptavinum til hagsbóta. Á árinu var lögð áhersla á að fá samþykki viðskiptavina fyrir rafrænum viðskiptum en slíkt upplýst samþykki er nauðsynlegt. 

Sífellt fleiri viðskiptavinir vilja nýta sér rafræna þjónustu og sjálfsafgreiðslu.

Þann 1. desember voru tryggingar í fyrsta sinn endurnýjaðar rafrænt hjá VÍS og gerðar aðgengilegar á MittVÍS, sem er þjónustuvefur VÍS. Enginn pappír var sendur til viðkomandi viðskiptavina sem rímar við umhverfisstefnu félagsins um pappírslaus viðskipti.

Á árinu var áfram unnið að uppbyggingu á vöruhúsi gagna, sem er grundvöllur áframhaldandi uppbyggingar á nýtingu þeirra, en starfsemi vátryggingafélaga byggir á öflugri og skilvirkri vinnslu gagna. Grundvöllur réttrar verðlagningar er áreiðanlegt áhættumat ásamt virðisgreiningu, sem byggir á sögulegum gögnum. Forsenda einstaklingsmiðaðrar þjónustu er að geta greint viðskiptavini og þarfir þeirra.

Innleiðing á nýju upplýsingakerfi
Stærsta einstaka verkefni ársins 2016 var gangsetning á hugbúnaðarlausn frá TIA Technology A/S en einstaklingsviðskipti voru gangsett 23. ágúst og fyrirtækjaviðskiptin 17. október. Samhliða gangsetningunni á TIA, sem hefur fengið íslenska heitið Askur, var tekin í notkun ný iðgjaldaskrá fyrir ökutækjatryggingar sem byggir á áhættumiðaðri verðlagningu. Allir nýir viðskiptavinir hjá VÍS fara nú inn í Ask.

Með innleiðingu á lausninni hverfur VÍS frá því að nota heimasmíðuð upplýsingakerfi, yfir í að byggja á stöðluðum kjarnalausnum. Með staðlaðri lausn er átt við að breytingar séu ekki gerðar á grunni kerfisins heldur er kerfið innleitt með þeim hætti að auðvelt sé að uppfæra það í nýjar útgáfur.

Með innleiðingu á staðlaðri lausn frá TIA verður VÍS hluti af samfélagi TIA notenda og getur notið góðs af nýrri virkni, haft áhrif á þróun TIA lausnarinnar og notið þeirra lausna sem TIA þróar í samstarfi við önnur félög en VÍS er hluti af „Customer Advisory Board“ hjá TIA.

Með gangsetningu TIA verður smiðshöggið rekið á breytingu á upplýsingatækni hjá VÍS og upplýsingatæknirekstur færður í sambærilegt form og gerist hjá öðrum tryggingafélögum á hinum Norðurlöndunum, sem byggir á útvistun og stöðlun hugbúnaðarlausna.

Framundan eru ýmis verkefni við að hagnýta þessa fjárfestingu í tengslum við rafræna þjónustu, aukna sjálfvirkni og vöruþróun.